Uppsveitir Árnessýslu
Byggðakjarnar: Árnes, Borg, Brautarholt, Flúðir, Laugarás, Laugarvatn, Reykholt, Sólheimar.
Uppsveitir Árnessýslu er fjölsóttusta ferðamannasvæði landsins og hvergi er fleiri sumarhús. Mikil uppbygging hefur verið á svæðinu og gestum og íbúum fjölgar. Ástæðurnar eru margar, hér eru rómaðar náttúruperlur og sögustaðir og náttúran fjölbreytileg. Aðgengi og nálægð við höfuðborgarsvæðið er kostur og það kemur mörgum skemmtilega á óvart hvað stutt er að skreppa í algera kyrrð og sveitasælu.
Fjölbreytt afþreying er í boði á svæðinu jafnt fyrir þá sem stoppa stutt og aðra sem kjósa að dvelja lengur. Fjölmargar sundlaugar og golfvellir, hestaleigur, hestasýningar, veiði, fjórhjól, bátaleiga, hellaskoðun, snjósleðaferðir á Langjökul, flúðasiglingar á Hvítá, skipulagðar gönguferðir og gönguleiðir, skógar, fræðslustofur, dýragarðar, adrenalíngarður, litboltavöllur, gallerý, söfn og sýningar, kirkjur o.fl.
Náttúran er alltaf helsta aðdráttaraflið, en á undanförnum árum hefur áhugi ferðamanna á sögu og menningu farið vaxandi. Gestir vilja gjarnan sjá og heyra hvað heimamenn eru að fást við. Til að mæta þessum áhuga er m.a. boðið upp á heimsóknir í garðyrkjustöðvar og á sveitabæi, byggðar hafa verið gestastofur og ýmsar uppákomur skipulagðar. Skipulögð dagskrá er á Þingvöllum, Skálholti og Sólheimum á sumrin.
Ferðaþjónustuaðilar í uppsveitunum brydda gjarnan upp á ýmsum menningarviðburðum, bjóða upp á lifandi tónlist, myndlistarsýningar, skemmtikvöld af ýmsum toga, golfmót, óvissuferðir og afþreyingu fyrir fjölskyldufólk.
Gistmöguleikar eru af öllum gerðum; tjaldsvæði, farfuglaheimili, bændagisting, gistiheimili, sumarhús, hótel og fjallaskálar. Og flestir hafa heita potta. Fjölbreyttir veitingastaðir bjóða gestum upp á matvæli úr heimabyggð eftir því sem við verður komið og matarupplifun enda eru uppsveitirnar mikil matarkista.
Svæðið er í senn gamalgróið og síungt ferðamannasvæði því ferskar hugmyndir koma fram á hverju ári. Gestir og gangandi velja svo hvort þeir vilja kyrrð, fróðleik, spennu eða sitt lítið af hverju. Þess vegna er auðvelt að koma aftur og aftur og upplifa alltaf eitthvað nýtt. Hver árstíð hefur einnig sinn sjarma, ár og fossar í klakaböndum, myrkur og norðurljós eða haustlitadýrð eru ekki síðri upplifun en bjartar sumarnætur.
Allar upplýsingar um þjónustu og það sem er á döfinni má finna hér á vefsíðunni www.sveitir.is
og á www.south.is
Verið velkomin.