Skálholt

Skálholt er einn af mikilvægustu sögustöðum á Íslandi. Fyrsti biskupinn í Skálholti, Ísleifur, var vígður í Bremen árið 1056. Hann var sonur eins af leiðtogum kristinna manna á Alþingi árið 1000 og voru þeir frændur Ólafs konungs Tryggvasonar.

Gissur, sonur Ísleifs, varð næsti biskup og gaf hann kirkjunni Skálholt með þeim ummælum að meðan kristni og byggð héldist í landinu ætti Skálholt að vera biskupsstóll. Frá Skálholti var hin unga kirkja skipulögð. Þar varð mikilvægasta miðstöð mennta og stjórnsýslu í margar aldir. Í kirknatali Páls Jónssonar biskups frá því um 1200 er sagt að Skálholt sé dýrlegastur bæja á Íslandi.

Frægastur Skálholtsbiskupa er eflaust Þorlákur helgi sem dó 1193 og hefur verið nefndur verndardýrlingur Íslendinga. Eftir siðbreytinguna á 16. öld hélt Skálholt mikilvægi sínu sem skólasetur og kirkjuleg menningarmiðstöð. Í gegnum skólahaldið í Skálholti og á Hólum bárust erlend menningaráhrif til landsins og þar var oft veitt sú forysta sem þurfti til að varðveita hinn íslenska menningararf.

Skálholtsstað er enn verið að byggja upp og er stefnt að því að hann verði bæði fjölsóttur ferðamannastaður og kyrrlátur staður fyrir þá sem hér dvelja, auk þess að vera fræðasetur. Von þeirra sem að þessari uppbyggingu standa er að Skálholt verði í framtíðinni ennþá staður sem skiptir miklu máli fyrir land og þjóð.