30. janúar

Undirritun Sóknaráætlana landshlutanna 2025-2029

Miðvikudaginn 29. janúar fór fram undirritun Sóknaráætlanasamninga fyrir næstu fimm ár í Norræna húsinu. Samningar voru gerðir á milli landshlutasamtaka sveitarfélaga og þriggja ráðuneyta, með það að markmiði að styðja við jákvæða byggðaþróun, efla atvinnulíf og nýsköpun, styrkja menningu og stuðla að sjálfbærni í umhverfismálum. Fjármagnið mun nýtast til fjölbreyttra verkefna á Suðurlandi sem stuðla að þróun og styrkingu samfélagsins. Það er samdóma álit þeirra sem að sóknaráætlunum koma að þær hafi reynst afar mikilvægar fyrir uppbyggingu í dreifðum byggðum landsins og skapað aukin tækifæri fyrir fólk.

Framlög ríkisins til samninganna árið 2025 nema samtals 865,7 milljónum króna, en framlög sveitarfélaga nema 93,9 milljónum króna. Þar með nema heildarframlög ríkis og sveitarfélaga til sóknaráætlana um 960 milljónum króna. Framlag innviðaráðuneytisins nemur 552,1 milljón króna, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins 223,6 milljón króna og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins 90 milljón króna. Heimilt er að semja um frekari framlög annarra aðila að samningnum.

Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem byggja á stöðumati, framtíðarsýn og markmiðum hvers landshluta. Markmiðið er að tryggja að ráðstöfun fjármuna í samfélags-, umhverfis- og byggðamálum byggi á áherslum heimafólks og stuðli að sjálfbærri og samkeppnishæfri þróun byggðanna.

Á Suðurlandi hefur Sóknaráætlun verið mikilvæg stoð í fjölbreyttum verkefnum sem tengjast menningu, nýsköpun og atvinnuuppbyggingu. Með þessum nýja samningi verður áfram byggt á þeirri góðu reynslu sem hefur fengist af verkefninu undanfarin ár.

Samningarnir eru gerðir á grundvelli sveitarstjórnarlaga og gilda í fimm ár í senn. Framlögin styrkja áframhaldandi þróun byggða landsins með áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlinda og atvinnuþróun í heimabyggð.

Fréttin byggir á frétt Stjórnarráðsins varðandi undirritunina.

fv. Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Anton Kári Halldórsson formaður SASS, Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra og Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra

Ráðherrar og fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaga að lokinni undirritun samninga um sóknaráætlanir fyrir tímabilið 2025-2029.