6. janúar

Tími Þorrablóta framundan

Við bjóðum nýtt ár velkomið og hlökkum til þeirra verkefna sem það ber í skauti sér.
Birtan eykst með hverjum deginum hægt og rólega og framundan er tími þorrablótanna.
Heimamenn í Uppsveitum halda sín þorrblót í hverri sveit og eru það fjölmennar skemmtanir.

Á vefsíðu Árnastofnunar segir þetta um Þorrablót:

   "Í fornu íslensku tímatali var þorri fjórði mánuður vetrar. Hann hefst á föstudegi í 13. viku vetrar eða á tímabilinu 19.–25. janúar. Þorri mun hafa verið vetrarvættur í forneskju en opinber dýrkun hans bönnuð eftir kristnitöku. Fyrsti dagur þorra er sums staðar á landinu nefndur bóndadagur og þá er sagt að húsfreyja eigi að gera sérstaklega vel við bónda sinn. 

    Þorrablót urðu ekki almenn á ný fyrr en á seinni hluta 19. aldar en þá tóku ýmis félög að halda þorrablót. Nú eru þorrablót mjög almenn og gefa tilefni til skemmtunar í skammdeginu um leið og þau minna Íslendinga á fornar rætur í íslenskri menningu. Á þorrablótum blóta menn þorra með því að syngja ættjarðarsöngva og snæða íslenskan mat eins og síld, harðfisk, hákarl, hvalkjöt, súrt hvalrengi, slátur, sviðahausa, súrsaða hrútspunga, hangikjöt og laufabrauð."
www.arnastofnun.is