20. september
Þjónustukönnun Byggðastofnunar 2024
Byggðastofnun hefur sett af stað umfangsmikla þjónustukönnun til að kanna hvaða þjónusta skiptir íbúa landsins máli, hvernig hún er nýtt og hvað þarf að bæta eða efla. Könnunin, sem er framkvæmd af Maskínu, nær til íbúa um allt land utan höfuðborgarsvæðisins og er hluti af rannsóknum á þjónustusókn og væntingum til breytinga á þjónustu.
Markmið könnunarinnar er að kortleggja þjónustusvæði og viðhorf íbúa til breytinga á þjónustu og mun útkoman nýtast til að efla byggð um allt land. Það er mikilvægur liður í stefnumótandi byggðaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2022-2036, þar sem áhersla er lögð á að jafna aðgengi að þjónustu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða. Í könnuninni er spurt hvaða þjónustu íbúar nota, hvert þeir fara til að sækja hana og hvaða þjónustu þeir óttast helst að missa úr heimabyggð.
Könnunin er á íslensku, ensku og pólsku, og tekur um 10 mínútur að svara henni. Rafræn skilríki eru notuð við innskráningu til að tryggja áreiðanleika könnunarinnar, en öllum persónulegum upplýsingum er eytt áður en úrvinnsla gagna hefst.
Mikilvægt að fá svörun frá dreifðari byggðum
Sérstök áhersla er lögð á að fá svör frá íbúum í dreifðum byggðum landsins, þar sem þátttaka þeirra er lykilatriði til að fá sem réttasta mynd af þjónustusókn og viðhorfum til þjónustu í fámennum byggðarlögum. Við hvetjum því íbúa Uppsveitanna að vera duglega við að svara svo að hægt sé að fá raunhæfa mynd á svæðið.
Þjónustukannanir sem þessar hafa áður verið framkvæmdar á árunum 2016-2017 í sjö landshlutum og niðurstöður þeirra hafa verið birtar í skýrslum árin 2017 og 2018. Með þessari nýju könnun mun Byggðastofnun halda áfram að safna dýrmætum gögnum til að stuðla að bættum lífskjörum og jafnvægi í þjónustu fyrir alla íbúa landsins.
Íbúar sem búa utan höfuðborgarsvæðis eru hvattir til að taka þátt í könnuninni og hafa áhrif á framtíðarskipulag og þróun þjónustu í þeirra heimabyggð.
Smelltu hér til að taka þátt í könnuninni og hafa áhrif á framtíðarþjónustu í þínu samfélagi.
Open survey: www.maskina.is/byggdastofnun
Further information regarding the survey
Odpowiedz na ankietę: www.maskina.is/byggdastofnun