20. janúar

Ný ferðamálastefna til 2030 samþykkt

Í desember 2024 var samþykkt á  Alþingi  þingsályktunartillaga um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Stefnan var unnin í samstarfi við atvinnulífið, fagfólk í ferðamálum og grasrótina og  byggir hún á víðtæku samráði þar sem yfir þúsund einstaklingar lögðu sitt af mörkum við vinnu hennar.

Markmið stefnunnar er að styðja við lífskjör, hagsæld og framtíð íslenskrar ferðaþjónustu og leggur stefnan áherslu á sjálfbærni, gæði og einstaka upplifun. Stefnan á að skapa grunn að sjálfbærum vexti ferðaþjónustu á Íslandi. Lykiláherslurnar snúast um jafnvægi í samfélagi, efnahag, umhverfi og gestaupplifun.

Sjálfbær framtíð ferðaþjónustu
Ferðamálastefnan 2030 leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu lands og auðlinda með það langtímamarkmið að efla íslenska ferðaþjónustu sem arðsaman og samkeppnishæfan geira. Stefnan byggir á fjórum lykilstoðum: samfélagi, efnahag, umhverfi og gestaupplifun.

Áherslur og aðgerðir
Undir hverri stoð eru þrír meginþættir. Til dæmis er lögð áhersla á:

  • Að efla sjálfbærni í ferðaþjónustu með tilliti til náttúru og umhverfis.
  • Að efla dreifingu ferðamanna um allt land.
  • Að tryggja gæði og einstaka upplifun fyrir gesti.

Stefnan endurspeglar víðtækt samstarf haghafa og setur grundvöll fyrir fjölþætta þróun ferðaþjónustu til framtíðar.

Hægt er að lesa stefnuna nánar með því að smella hér