22. janúar
Mannamót Markaðsstofa landshlutanna: Ferðasýning ársins haldin með glæsibrag
Mannamót Markaðsstofa landshlutanna fóru fram með pompi og prakt þriðjudaginn 16. janúar síðastliðinn í Kórnum í Kópavogi. Ferðasýningin, sem nú var haldin í ellefta sinn, hefur þróast og stækkað með hverju árinu og er orðin stærsta ferðasýningin á Íslandi. Það er langt síðan fyrstu Mannamótin voru haldin í litlu flugskýli á Reykjavíkurflugvelli, en í ár voru um 1600 skráðir sýnendur og gestir sem er fleiri en nokkru sinni áður.
Mannamót hafa skapað sér sess sem einn mikilvægasti vettvangur ferðaþjónustunnar á Íslandi. Þar koma saman fyrirtæki og einstaklingar sem tengjast greininni og mynda tengsl, kynna nýjungar og deila hugmyndum. Að þessu sinni var eins og áður áhugaverð dagskrá í kringum Mannamótin, með áherslu á nýsköpun, ábyrgð og fræðslu.
Sérstaka athygli vakti hvað margir sýnendur frá Suðurlandi tóku þátt í sýningunni, þar af margir frá Uppsveitum. Þeir voru, líkt og alltaf, til sóma með glæsilega kynningu á sínum vörum og þjónustu. Þetta endurspeglar þann mikla metnað og kraft sem einkennir ferðaþjónustuna á svæðinu, þar sem fjölbreyttir möguleikar og einstök upplifun eru í boði fyrir ferðamenn.
Til að hámarka ávinning Mannamótanna hefur síðustu ár verið haldin Ferðaþjónustuvika í samstarfi Markaðsstofa landshlutanna, Ferðamálastofu, SAF, Íslandsstofu og Ferðaklasans. Dagskráin var fjölbreytt og bauð upp á viðburði sem höfðu það að markmiði að efla ferðaþjónustuna enn frekar.
Á meðal viðburða sem voru má nefna:
- Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar
- Markaðssamtal ferðaþjónustunnar
- MICELAND kynningarvettvang
- Dagur ábyrgar ferðaþjónustu
- Ferðatæknimót
- Fræðslu um slysavarnir í ferðaþjónustu
Hápunktur vikunnar var að sjálfsögðu sjálft Mannamótið þar sem stemningin var lífleg og skemmtileg. Gestir fengu tækifæri til að kynnast fjölbreyttu framboði ferðaþjónustuaðila hvaðanæva af landinu og skapaa tengsl sem gera Mannamótin ómissandi fyrir greinina.
Ferðasýningin í Kórnum hefur fest sig í sessi sem lykilviðburður í íslenskri ferðaþjónustu, þar sem áhersla er lögð á samvinnu, nýsköpun og uppbyggingu.