18. september

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum fyrir árið 2025

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur auglýst eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2025. Sjóðurinn veitir fjármögnun til framkvæmda á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Umsóknarfrestur rennur út kl. 13:00 þriðjudaginn 15. október 2024.

Sjóðurinn leggur áherslu á að styðja verkefni á minna sóttum svæðum og lengja ferðamannatímabilið. Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér nýtt gæðamatsblað sjóðsins sem endurspeglar þessa áherslu.

Fjármögnun og áherslur sjóðsins:

Sjóðurinn getur veitt fjármögnun til verkefna sem tengjast eftirfarandi þáttum:

  • Öryggi ferðamanna.
  • Náttúruvernd, viðhaldi og uppbyggingu ferðamannastaða og leiða.
  • Undirbúnings- og hönnunarvinnu sem nauðsynleg er fyrir framangreindar framkvæmdir.

Hins vegar er sjóðnum ekki heimilt að fjármagna rekstrarkostnað mannvirkja eða náttúruverndarsvæða, framkvæmdir sem eru hluti af landsáætlun um uppbyggingu innviða, eða verkefni sem þegar er lokið.

Gæði umsókna:

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér vel lög og reglur sem gilda um sjóðinn ásamt gæðaviðmiðum hans. Þetta má finna á umsóknarsíðu sjóðsins, þar sem einnig má nálgast allar upplýsingar um skilyrði og umsóknarferlið.

Byggðaþróunarfulltrúi í Uppsveitum veitir ráðgjöf varðandi umsóknir í hina ýmsu sjóði og er hægt að ná í hann í tölvupóstfangið lina@sveitir.is

Haukur Snorrason
Mynd: Bláber- Haukur Snorrason