15. apríl
Bláskógabyggð samþykkir nýja lýðheilsu- og forvarnastefnu með áherslu á sjálfbærni og samráð
Á haustmánuðum 2022 ákvað sveitarstjórn Bláskógabyggðar að hefja heildstæða stefnumótun fyrir sveitarfélagið með það að markmiði að móta framtíðarsýn, gildi og verkefni til næstu ára. Í þessari vinnu var sérstaklega horft til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og lögð áhersla á sjálfbæra og framsækna þróun með það að leiðarljósi að skapa heilsusamlegt og bætt samfélag.
Í framhaldi af þessari stefnumótun hófst vinna við endurskoðun á ýmsum stefnum sveitarfélagsins. Samhliða var ákveðið að móta nýja lýðheilsu- og forvarnastefnu með víðtæku samráði við íbúa. Leitað var álits hjá ungmennaráði, haldnir voru vinnufundir með sveitarstjórn, nefndum og helstu hagsmunaaðilum, auk þess sem haldinn var opinn íbúafundur þar sem íbúar gátu komið á framfæri athugasemdum sínum við drög að stefnu. Stefnan var samþykkt í sveitarstjórn þann 11. desember 2024.
Við mótun stefnunnar var tekið mið af áherslum stjórnvalda til ársins 2030 um heilsueflingu og forvarnir. Lögð er áhersla á fyrsta stigs forvarnir, að viðhalda og bæta heilbrigði íbúa og að koma í veg fyrir sjúkdóma eins og hægt er. Einnig er lögð áhersla á þverfaglegt samstarf innan sveitarfélagsins, til dæmis milli sviða og stofnana, sem og samstarf við aðra hagaðila eins og heilsugæslu og félagasamtök. Jafnrétti og jöfnuður eru leiðarljós í allri stefnumörkun og framkvæmd stefnunnar.
Lýðheilsu- og forvarnastefna Bláskógabyggðar byggir á fjölbreyttum gögnum og mati og nýtir þau til að móta skýra aðgerðaáætlun og fylgja eftir markmiðum með skipulegu mati á árangri.
Stefnuna í heild má nálgast hér