5. september
Ýmsir styrkir í boði fyrir samfélagsverkefni, uppbyggingu og nýsköpun
Sumri hallar og haustið tekur yfir með allri sinni litadýrð og fegurð. Nú í byrjun september heyrist á tali fólks að spennan yfir réttum er allsráðandi og vonum við að veðurblíðan sem hefur verð ríkjandi síðustu mánuði verði með okkur sunnlendingum í liði áfram. September er líka mánuður hinna ýmsu sjóða en Uppbyggingarsjóður Suðurlands opnaði fyrir umsóknir í sjóðinn þann 5. september sl. og rennur umsóknarfrestur í hann út þriðjudaginn 3. október kl. 16:00. Við hvetjum þá sem luma á hugmynd sem fellur að kröfum sjóðsins að sækja um. Frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna hér.
Aðrir sjóðir sem við hvetjum fólk til að kynna sér eru þessir:
Samfélagssjóður EFLU - EFLA veitir styrki til uppbyggjandi og jákvæðra verkefna, sem nýtast samfélaginu. Markmiðið með styrkjunum er að styðja við framtak einstaklinga og hópa sem stuðla að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi. Sjóðurinn styrkir þó að jafnaði ekki ferðalög, rekstrar- eða launakostnað. Úthlutað er úr sjóðnum einu sinni á ári. Umsóknarfrestur er til og með 15. september 2023, en tekið er á móti umsóknum árið um kring. Hér má nálgast umsóknarform og frekari upplýsingar um sjóðinn.
Uppsprettan, nýsköpunarsjóður Haga- Hlutverk sjóðsins er að virkja og styðja frumkvöðla til nýsköpunar og þróunar í íslenskri matvælaframleiðslu. Sjóðurinn leggur áherslu á stuðning við frumkvöðla verkefni sem taka tillit til sjálfbærni og styðja við innlenda framleiðslu. Umsóknarfrestur 27. september 2023. Hér má nálgast umsóknarform og frekari upplýsingar um sjóðinn.
Tækniþróunarsjóður hefur opnað fyrir umsóknir í styrktarflokkunum Sproti, Vöxtur og Markaður. Umsóknarfrestur er 15. september 2023, kl. 15:00.
- Sproti er fyrir ung nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla og hefur það að markmiði að styðja við verkefni á byrjunarstigi.
- Vöxtur er fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og er ætlaður til að styrkja þróunarverkefni sem eru komin af frumstigi hugmyndar.
- Markaður er ætlaður litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem verja að lágmarki 10% af veltu sinni til rannsókna- eða þróunarstarfs samkvæmt síðasta reikningsári.
Hér má nálgast umsóknarform og frekari upplýsingar um Tækniþróunarsjóðinn.
Landsvirkjun Samfélagssjóður – Stefna sjóðsins er að styðja verkefni sem hafa breiða samfélagslega skírskotun og möguleika á að hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Næsti umsóknarfrestur í sjóðinn er 30. nóvember 2023. Hér má nálgast umsóknarform og frekari upplýsingar um sjóðinn.
Orkurannsóknasjóður - Rannsóknir og vísindi veitir styrki til námsfólks og rannsóknarverkefna á vegum háskóla, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Næst verður auglýst eftir umsóknum í sjóðinn í lok árs 2023. Hér má nálgast umsóknarform og frekari upplýsingar um sjóðinn.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða - fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.
Sjóðnum er heimilt að fjármagna framkvæmdir er snúa að:
- Öryggi ferðamanna.
- Náttúruvernd og uppbyggingu.
- Viðhaldi og verndun mannvirkja og náttúru.
- Fjármögnun undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna áður greindra framkvæmda.
Verkefni sem sett eru inn í gildandi áfangastaðaáætlun landshlutans njóta sérstakrar stigagjafar til viðbótar annarri stigagjöf.
Umsóknartímabil um styrki vegna framkvæmda á árinu 2024 er frá og með 11. september 2023 til kl. 13 fimmtudaginn 19. október 2023.
Nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna hér.
Við hvetjum fólk til að kynna sér þessa styrki og ef spurningar vakna eða aðstoðar er þörf varðandi ferlið þá endilega hafið samband við nýráðinn byggðaþróunarfulltrúa í Uppsveitum Árnessýslu Línu Björgu Tryggvadóttur i tölvupóstfangið lina@sveitir.is