Gönguferðir í Hrunamannahreppi

Gönguferðir í Hrunamannahreppi 2018
Ferða- og menningarnefnd Hrunamannahrepps kynnir hér gönguferðir sumarsins 2018. Þetta er sautjánda sumarið sem boðið er upp á þessar ferðir. Ferðirnar eru alls sjö. Allar ferðirnar verða á miðvikudagskvöldum í sumar nema ferðirnar 30.06. og 25.08. sem eru dagsgöngur. Frítt er í allar göngurnar en innheimt verður fyrir leiðsögn/akstur í Stóru-Laxár gönguna. Leiðsögumenn í ferðunum í samvinnu við heimafólk verða þau Helgi Már Gunnarsson og Kolbrún Haraldsdóttir, Flúðum. Allir eru hjartanlega velkomnir.

1. ferð er 13. júní. Foss – Gildurhagi
Lagt af stað kl 20:00 frá upplýsingaskiltinu um byrgi Fjalla Eyvindar sem er við afleggjarann heim að Jötu. Þetta er létt og skemmtileg leið fram í Gildurhaga sem er mikil náttúruperla. Sagan af Sængurkonukletti verður rifjuð upp. Hér er notalegt að eiga góða kvöldstund í fallegu umhverfi.
Létt og auðveld ganga sem tekur u.þ.b. 2-3 klst.

2. ferð er 20. júní. Byrgi Fjalla- Eyvindar
Lagt af stað kl 20:00 frá upplýsingaskiltinu um byrgi Fjalla Eyvindar sem er við afleggjarann heim að Jötu. Gengið eftir götum fram Skipholtsfjall og að byrgi (búri) Fjalla-Eyvindar sem er vel falið í landslaginu. Létt og auðveld ganga sem tekur u.þ.b. 2-3 klst.

3. ferð er 27. júní. Hörgsholt - Sólheimar
Lagt af stað kl 20:00 frá Sólheimum. Hittumst á planinu við rörahliðið hjá fjárhúsinu á Sólheimum. Þar verður safnast í bíla og ekið að afleggjaranum heim að Hörgsholti þar sem gangan hefst. Gengið verður að eyðibýlinu Hörgsholti og þaðan meðfram Stóru- Laxá niður að Sólheimum. Skemmtileg og falleg leið þar sem Stóra- Laxá rennur í fallegum gljúfrum.
Ganga sem tekur u.þ.b. 3 klst.

4. ferð er 30. júní. Foss- Ingjaldshnjúkur- Hildarsel- Fagridalur- Foss, dagsganga
Lagt af stað kl 11:00 frá planinu sem er fyrir framan fossinn áður en komið er heim að bænum Fossi. Þaðan er gengið upp á Tjarnheiði og svo haldið í suðurátt fram á Ingjaldshnjúk þar sem er víðáttumikið útsýni. Þaðan er haldið niður að eyðibýlinu Hildarseli, skoðum Kistufoss í Litlu- Laxá. Göngum síðan Fagradal til baka að Fossi. Ganga sem tekur u.þ.b. 6 klst.

5. ferð er 4. júlí. Brúarhlöð – Haukholt 
Farið er um Brúarhlöð-Haukholt um Kóngsveginn. Lagt af stað kl.20:00 frá Brúarhlöðum og farið um gamla Kóngsveginn sem ekki er farinn á hverjum degi. Mjög falleg leið niður með Hvítá þar sem skiptist á beljandi áin í þröngu gljúfrinu og síðan ganga um fallegan birkiskóg. Þægileg ganga fyrir alla aldurshópa. Áætlaður göngutími er 2-3 klst.

6. ferð er 11. júlí. Núpstúnskista
Lagt af stað kl. 20:00 frá hlaðinu í Núpstúni. Gengið inn með fjallinu og fikrað sig upp á Núpstúnskistu og gengið fram á Nípuna. Falleg leið og nokkuð auðveld ganga sem tekur 
u.þ.b. 2 klst.

7. og síðasta ferð sumarsins 25. ágúst er Stóra-Laxárgljúfur ganga.
Þetta er dagsganga, u.þ.b. 16 km. Ekið er inn á afrétt Hrunamanna og gengið niður með hinu stórkostlega gljúfri Stóru-Laxár en það er rómað fyrir náttúrufegurð. Endað er við bæinn Kaldbak. Ógleymanleg ganga og er hugsuð sem náttúruskoðun. Gangan er í samstarfi við Upplit menningarklasa uppsveita Árnessýslu. Athugið að það þarf að panta í þessa ferð í síma 6923882/6995178. Gera þarf ráð fyrir einhverjum kostnaði sem verður auglýstur síðar er hann fyrir akstri og leiðsögn.

 

« Til baka