Skálholt í desember

Það er mikil og góð dagskrá framundan í Skálholtsdómkirkju í desember.
Ásamt fjölda annarra glæsilegra viðburða er vakin sérstök athygli á eftirfarandi viðburðum sem gaman væri að sjá sem flesta á.

10. desember jólastund klukkan 20:00

Karlakór Selfoss og Skálholtskórinn flytja fallega jóladagskrá þar sem kórarnir syngja hvor í sínu lagi dásamlega jólatónlist og hver veit nema þeir taki eitthvað sameiginlegt lag á tónleikunum. Sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti flytur hugvekju. Allir eru hjartanlega velkomnir að njóta hátíðlegrar söngstundar á þessu mánudagskvöldi í aðdraganda jóla. Aðgangseyrir er 1500 krónur sem rennur óskiptur í gluggasjóð Skálholtsdómkirkju. Stjórnandi og organisti er Jón Bjarnason.

Helgileikur 13. desember klukkan 15:00

Börn í 1. – 4. bekk úr grunnskólum Bláskógabyggðar á Laugarvatni og Reykholti sýna helgileik í kirkjunni eins og gert hefur verið um áratugaskeið. Umsjón með helgileiknum er í höndum kennara grunnskólans á Laugarvatni, Bergþóru Ragnarsdóttur djáknakandídats, Jóns Bjarnasonar dómorganista og sr. Egils Hallgrímssonar sóknarprests.

Messa þriðja sunnudag í aðventu 16. desember kl. 11. Það er Gluggamessa til að þakka fyrir frábæra vinnu og dýrmæt framlög til lagfæringa á steindu gluggum Gerðar Helgadóttur í Skálholtsdómkirkju en þeim er núna lokið, auk viðgerða á altarismynd Nínu Tryggvadóttur. Messan er haldin í samstarfi við Verndarsjóð Skálholtsdómkirkju, Skálholtsfélagið nýja, stjórn Skálholts og kirkjuráð. Sr. Egill Hallgrímsson og sr. Kristján Björnsson þjóna ástamt fleiri prestum og leikmönnum. Hlaðborð í boði Skálholts eftir messu og stutt dagskrá í Skálholtsskólanum undir máltíðinni.

Aðventuhátíð 16. desember klukkan 16:00

Þriðja sunnudag í aðventu verður glæsileg dagskrá þar sem fram koma Skálholtskórinn, börn úr grunnskólum Bláskógaskóla á Laugarvatni og í Reykholti syngja nokkur lög. Kristján Gíslason, Hringfarinn sem hjólaði kringum hnöttinn, flytur hugvekju. Sr. Egill Hallgrímsson sóknarprestur í Skálholtsprestakalli og sr. Kristján Björnsson vígslubiskup sjá um bæn og blessun. Organisti og kórstjóri er Jón Bjarnason

« Til baka