Fréttir frá Skálholti

Sumarið í Skálholti – tónlist, miðaldakvöldverður, pílagrímar og sögur

Í sumar verður fjölbreytileg dagskrá í Skálholti, Sumartónleikarnir eru á sínum stað, Skálholtshátíð 23. júlí og pílagrímagöngur, jafnt frá Bæ í Borgarfirði, Þingvöllum og Strandakirkju sem enda á Skálholtshátíð. Einnig verður boðið upp á þá nýbreytni að bjóða upp á „Sumarkvöld í Skálholti“ en þá koma góðir gestir sýna og segja frá ýmsu markverðu á staðnum eða úr sögu hans.


Opinn miðaldakvöldverður verður haldinn  föstudagskvöldið 23. júní og geta allir komið og tekið þátt, sjá nánar á www.skalholt.is

Sumartónleikarnir hefjast fyrstu helgina í júli eða 3. júlí en þá verður m.a. flutt kórverkið Ljósbrot sem er samið um glugga Skálholtsdómkirkju. Tónleikarnir verða svo allar götur til 6. ágúst og eru tónleikadagarnir oftast um helgar. Sjá nánar á heimasíðu Skálholts.

Fyrsta pílagrímaganga sumarsins í Skálholt hófst sunnudaginn 28. maí í Strandakirkju en síðan er gengið fjóra sunnudaga í júní, júlí, næst 11. júní. Sjá nánar á heimasíðu Skálholts og á vef Ferðafélags Íslands.

„Sumarkvöld í Skálholti“ verða á miðvikudagskvöldum og verður það fyrsta 28. júní en þá mun Guðríður Helgadóttir segja frá ræktun í Skálholti og kenna þátttakendum að lesa jurtir á staðnum. Hún verður svo aftur viku seinna eða 5. júlí, en 12. júlí kemur Sveinn Einarsson f.v. þjóðleikhússtjóri og segir frá því þegar kista Páls biskups fannst í Skálholti. Hildur Hákonardóttir veflistakona segir frá listaverkum Skálholtsdómkirkju 19. júlí en síðasta miðvikudagskvöldið, 26. júlí segir Bjarni Harðarson sögur af skemmtilegu og skrítnu fólki í Skálholti. Á eftir verður kaffiterían opin og er hægt að kaupa veitingar.

 

« Til baka